Nýir framkvæmdastjórar hjá CenterHotels

Nýir framkvæmdastjórar - CenterHotels

Við hjá CenterHotels horfum með björtum augum til framtíðar og vinnum stöðugt að því að skipuleggja okkur vel fyrir komandi ár þar á meðal  með skipulagningu á hlutverkum í sölu- og markaðsdeildinni.

Nýir framkvæmdastjórar taka við boltanum í sölu- og markaðsdeild.  Sara Kristófersdóttir sem nú gegnir starfi framkvæmdastjóra sölu- og markaðssviðs verður framkvæmdastjóri viðskiptasviðs. Sigríður Helga Stefánsdóttir, núverandi markaðsstjóri, tekur við sem framkvæmdastjóri markaðssviðs og Stefán Örn Einarsson, núverandi sölustjóri, verður framkvæmdastjóri sölusviðs.

Sara hefur undanfarin 8 ár verið framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs en þar á undan gegndi hún starfi viðskiptastjóra á Norðurlöndum og síðar Bretlandsmarkaði fyrir Booking.com. Eins hefur Sara gegnt ýmsum störfum hjá CenterHotels frá stofnun fyrirtækisins, en hún lauk BSc hons prófi í International hospitality management frá DIT á Írlandi.

Stefán kom til starfa hjá CenterHotels árið 2009. Hann hefur sinnt ýmsum ábyrgðarstöðum innan fyrirtækisins og verið sölustjóri hótelkeðjunnar undanfarin 2 ár. Stefán lauk BA prófi í viðskiptafræði frá Leeds Beckett University í Englandi og LL.M prófi í alþjóðaviðskiptalögfræði frá sama háskóla.

Sigríður sem síðastliðin fjögur ár hefur verið markaðsstjóri CenterHotels starfaði áður hjá Iceland Express, fyrst sem verkefnastjóri í markaðsdeild og síðar sem viðskiptastjóri erlendra viðskipta.  Sigríður lauk B.Sc prófi í viðskipta- og alþjóðamarkaðsfræði frá Háskólanum í Reykjavík.

Þessar breytingar eru liður að skipulagningu fyrir stækkun keðjunnar sem er í vinnslu en stefnt er að því að opna tvö ný hótel í Reykjavík í lok næsta árs.

Það eru spennandi tímar framundan!