CenterHotels fá afhenta jafnlaunavottun

Við hjá CenterHotels erum afar stolt að því að hafa fengið jafnlaunavottun BSI.  Með vottuninni fáum við það staðfest að hjá CenterHotels ríkir launajafnrétti og að tryggt sé að sömu laun eru greidd fyrir sömu eða sambærileg störf óháð kyni.

Jafnlaunastefna CenterHotels er hluti af starfsmannastefnu fyrirtækisins en markmið með innleiðingu hennar er að tryggja að allir starfsmenn búi við sömu tækifæri og að störf þeirra allra séu metin á eigin forsendum, óháð kyni.   Við höfum lagt mikla áherslu á að skapa uppbyggilegt og gott vinnuumhverfi  hjá CenterHotels og hluti af því er að bjóða upp á mikið úrval af námskeiðum, vinnustofum og kynningum ásamt almennri fræðslu fyrir starfsmenn til að tryggja að allir starfsmenn okkar fá jöfn tækifæri til að vaxa og dafna í starfi.

“Að mínu mati ætti að vera sjálfsagt að það séu greidd sömu laun fyrir sömu vinnu.  En nú höfum fengið það staðfest hjá BSI British Standard Institution að við greiðum sömu laun hvort heldur eru kvenmenn eða karlmenn sem vinna verkið.  Vonandi minnkar þýðing þess ekki nú þegar búið er að lögfesta jafnlaunavottunina“ segir Svanfríður Jónsdóttir eigandi CenterHotels.

CenterHotels er fyrsta hótelkeðjan á Íslandi til að hljóta jafnlaunavottun en hjá CenterHotels starfa 267 manns á sex hótelum sem öll eru staðsett í miðborg Reykjavíkur.  Stöðugildin eru um 200 talsins.